Nýskráning

Skilmálar

Velkomin aftur

Loka

Týnt lykilorð?

Vaka Festival - Matar- og dansveisla í Iðnó

Vaka Festival - Matar- og dansveisla í Iðnó

14.09.2024 19:00
101, Vonarstræti 3, Reykjavík

Velkomin á Vöku, þriggja daga þjóðlistahátíð sem samanstendur af tónlist, dansi,  vinnustofum og matarveislu.

Á Vöku fléttast fornar hefðir við nútímann og sérstök áhersla er lögð á þátttökumenningu. Tími rímnalagsins, þjóðlagsins, langspilsins, tvísöngsins, vikivakans og rælsins er runninn upp! 

Saman endurvekjum við dýrmætar hefðir, búum í leiðinni til nýjar og sköpu ógleymanlega upplifun.

Hátíðin verður sett þann 13. september í Ráðhúsi Reykjavíkur kl. 14. Þar munu börn og unglingar frumflytja rímur eftir Þórarin Eldjárn undir stjórn Báru Grímsdóttur. Um kvöldið verða tónleikar í Fríkirkjunni kl. 20 með okkar fremsta þjóðlagatónlistarfólki. Eftir tónleikana heldur gleðin áfram á Ægi bar með samspili og “jam session” sem er öllum opin. 

Laugardagurinn er helgaður vinnustofum af ýmsu tagi og endar á glæsilegri tónlistar-, dans- og matarveislu í Iðnó. Valkyrjan mun töfra fram sínar gómsætu, matarmiklu súpur ásamt brauði og salötum.  

Á sunnudeginum sem einnig er Dagur rímnalagsins standa Kvæðamannafélagið Iðunn og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fyrir málþingi og tónleikum og er sú dagskrá öllum opin.  

Hátíðarpassi sem gildir á alla viðburði kostar 11.900 en einnig er hægt að kaupa sig inn á staka viðburði og við hurð. 

Ath. 20% afsláttur fyrir eldri borgara, nemendur og öryrkja.  

Vaka er sjálfstætt félag og aðgangseyrir er stór partur af fjármögnun þess. Miðaverði er stillt í hóf en við bjóðum þeim sem hafa eitthvað aflögu og vilja auka veg þjóðlista að setja inn upphæð að eigin vali yfir lágmarkinu. Við erum ótrúlega þakklát fyrir allan stuðning!  

Um Vökufélagið - félag þjóðlistafólks á Íslandi: 

Vökufélagið stuðlar að virku samtali og samstarfi milli einstaklinga, félaga og stofnana á sviði þjóðlistamenningar á Íslandi. 

Þjóðlistir samanstanda af fjölbreyttum hefðum tónlistar, söngs, handverks, kveðskapar, sagnamennsku, flutnings o.s.frv. Þær eru í stöðugri mótun, byggja á samtali við fyrri kynslóðir og tengja fortíð við nútíð. 

Vökufélagið stendur fyrir fjölbreyttum viðburðum allan ársins hring. Þungamiðja starfseminar er Vaka þjóðlistahátíð sem haldin verður dagana 13.-15. september 2024 í Reykjavík. 

Kíktu á heimasíðuna okkar til að sjá nánari útlistun á dagskránni og hikaðu ekki við að hafa samband ef þú hefur spurningar.